» » » TVEIR FORMENN KVADDIR

TVEIR FORMENN KVADDIR

FORMANNAFUNDUR SGS – TVEIR FORMENN KVADDIR

Síðastliðinn föstudag (19. febrúar) hélt Starfsgreinasambandið formannafund í höfuðstöðvum sambandsins í Reykjavík. Til fundarins voru boðaðir formenn allra aðildarfélaga sambandsins, 19 talsins.

Á dagskrá fundarins var m.a. erindi frá Vinnueftirlitinu þar sem Kristinn Tómasson læknir Vinnueftirlitsins fjallaði um ofbeldi, áreiti og einelti og úrræði við þeim og innlegg frá NPA-miðstöðinni þar sem þeir Rúnar Björn Þorkelsson, formaður NPA-miðstöðvarinnar og Hallgrímur Eymundsson, stjórnarmaður, kynntu hugmyndafræði NPA og starfsemi samtakanna fyrir fundarmönnum. Á fundinum var samþykkt ályktun vegna kjaradeilu starfsfólk í Álverinu í Straumsvík, en í henni lýsir SGS yfir þungum áhyggjum af kjaradeilu starfsfólks í álverinu í Straumsvík við óbilgjarna viðsemjendur, en um leið yfir fullum stuðningi við starfsfólk í álverinu og þeirra stéttarfélög í baráttunni. Ályktunina í heild sinni má sjá hér. Þá voru stór sameiginleg verkefni aðildarfélaga SGS svo sem barátta gegn mansali og sjálfboðastörfum rædd og ákveðið hvernig skuli halda áfram störfum á þessum vettvangi.

Á fundinum voru tveir fráfarandi formenn aðildarfélaga innan SGS kvaddir þar sem þeir munu senn láta af formennsku í sínum félögum. Formennirnir sem um ræðir eru Már Guðnason, formaður Verkalýðsfélags Suðurlands og Ásgerður Pálsdóttir, formaður Stéttarfélagsins Samstöðu, en bæði hafa þau gegnt formennsku í sínum félögum til fjölda ára. Var þeim færður þakklætisvottur fyrir farsælt og ánægjulegt samstarfs innan Starfsgreinasambandsins í gegnum tíðina.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *