Ágætu félagsmenn

Ég er dálítið hugsi eftir þing ASÍ sem haldið var dagana 22.-24. okóber síðastliðinn. Meðal þess sem ég er hugsi yfir er ályktun sem samþykkt var á þinginu. Ályktunin er svohljóðandi:

„Höfnum tvöföldu heilbrigðiskerfi
Þingfulltrúar á 41. þingi Alþýðusambands Íslands krefjast þess að allir landsmenn hafi jafnan,
óheftan aðgang að heilbrigðiskerfinu og geti sótt sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og lyf óháð efnahag og búsetu.

Þingfulltrúar hafna alfarið tvöföldu heilbrigðiskerfi og benda á að nú þegar er sú staða uppi
að efnaminna fólk þarf að neita sér um heilbrigðisþjónustu og lyf vegna kostnaðar á meðan þeir
efnameiri geta keypt sér forgang og betri þjónustu. Með þessu er rofinn áratuga samfélagssáttmáli
um aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðiskerfið á að fjármagna úr sameiginlegum sjóðum og nauðsynlegt er að forgangsraða í opinberum rekstri svo öllum verði aftur tryggð heilbrigðisþjónusta í fremstu röð. Til þess þarf m.a. að hefjast nú þegar handa við byggingu á nýjum Landspítala.

Lækka verður tafarlaust beina greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu sem er komin út yfir öll þolmörk og eykur fjárhagslega og heilsufarslega misskiptingu.

Áherslur ASÍ:     
• Allir landsmenn hafi jafnan aðgang að bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu.
• Kostnaður sjúklinga komi aldrei í veg fyrir að fólk geti sótt sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, lyf og hjálpartæki.
• Við höfnum alfarið tvöföldu heilbrigðiskerfi.

Verkefni:
• Endurskoða þarf greiðsluþátttökukerfið í heilbrigðisþjónustunni með það að markmiði að setja þak á heilbrigðiskostnað fjölskyldna á hverju 12 mánaða tímabili.
• Til lengri tíma skal stefna að því að heilbrigðisþjónustan verði gjaldfrjáls.
• Efla þarf heilsugæsluna, stytta biðtíma og tryggja öllum heimilislækni.
• Hefja þegar framkvæmdir við nýjan Landspítala“

Þessi ályktun er í anda þess sem við í verkalýðshreyfingunni viljum gjarnan heyra frá okkar forustumönnum. Það er mitt mat að í þjóðfélaginu sé að skapast þannig stemming að við ætlum að berjast  en vandamálið er að við vitum ekki alveg við hvern við eigum að berjast. Það er þó ágætt að minna sig á það að þeir sem við þurfum helst að takast á við eru Samtök atvinnlífsins og stjórnvöld, svo ekki sé nú talað um seðlabankann.

Það sem mér finnst vera aðal vandinn er að Alþingi fer ekki almennilega í hlutina. Stjórnarflokkarnir eiga að hlusta betur á stjórnarandstöðuna og öfugt. Það sem mér finnst sorglegast að horfa upp á er þegar verið er að eyða tíma þingmanna í vangaveltur sem mega bíða,  eins og hver kaupir byssur og hvort selja eigi brennivín í matvöruverslunum, þegar heilbrigðiskerfinu er að blæða út. Skilaboð mín til stjórnvalda eru einföld; klárið velferðamálin og snúið ykkur svo að þeim málum sem ekki vega eins þungt. Rétt forgangsröðun er lykilatriði og það liggur í augum uppi að traust og gott heilbrigðiskerfi er mikilvægara en framangreind  atriði.

Það var ansi mikið um það á ASÍ þinginu að menn  fóru í pontu til að láta sjá sig en höfðu fátt til málanna að leggjavo komu aðrir með kraftmiklar og flottar ræður og tillögur sem gætu hjálpað fólki verulega, eins og t.a.m. um að setja þak á vexti á lánum til húsnæðiskaupa og afnema verðtryggingu. Þá kepptust menn við að verja fjármagnseigendur. Þeirra helstu rök voru hver vill lána pening og fá ekkert fyrir það. Að mínu mati er það ekki í okkar verkahring að finna lausnir fyrir fjármagnseigendur en aftur á móti veit ég að peningar ávaxtast ekki undir koddanum og  í þessum tillögum var aðeins verið að tala um að skuldarinn taki ekki einn skellinn ef allt fer til fjandans.

Einnig var talað um að hækka  lágmarkslaun til jafns við lágmarksframfærsluviðmið. Þetta fannst sumum ekki við hæfi en ég spyr; af hverju eiga lágmarkslaun að vera undir lágmarksframfærslu? Er það lögmál að sumir hópar eigi að vera undir fátæktarmörkum og þurfi því alltaf framfærsluaðstoð um hver mánaðarmót?

Í mínum huga er orðið kaupmáttur notað af hagfræðingum til að villa um fyir fólki. Hvernig má það vera að maður sem fékk launahækkun upp á 10.000 kr. á mánuði hafi orðið fyrir kaupmáttaraukningu en sá sem fékk hækkun upp á 600.000 kr. á mánuði fyrir kaupmáttarskerðingu?

Förum að tala mannamál og sýnum okkar fólki virðingu með því að tala ekki niður ákveðna hópa og gefum fólki  möguleika á að bjarga sér sjálft. Við Seðlabankastjóra vil ég segja að verkfólk eru ekki fífl. Verkafólk á Íslandi þarf að fá ansi ríflegar launahækkanir til að geta farið að bruðla það mikið að það hafi áhrif á verðbólguna! Allt tal um launahækkanir upp á 2-3% er út í hött og það er í raun forkastanlegt að voga sér að nefna slíkar smánarhækkanir í aðdraganda nýrra kjarasamninga. Verkafólk á skilið að geta unnið sína vinnu við mannsæamandi kjör – kjör sem eru hærri en lágmarks framfærsluviðmið. Gleymum því ekki að íslenskt verkafólk vinnur að stórum hluta störfin sem skapa lungann af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Það er kominn tími á að þetta fólk fái sinn hluta af kökunni!

Ágætu félagar í Verkalýðsfélagi Grindavíkur. Ég lofa ykkur að ég mun gera eins og ég get til að bæta ykkar kjör í næstu samningum en sennilega mun það kosta fórnir sem kemur í ykkar hlut að færa. Ég gert ekki séð að Samtök atvinnulífsins hafi samúð með ykkur. Það sést best á launamun þeirra og ykkar.

Með vinsemd og virðingu,

Magnús Már Jakobsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur943431_10151371171721205_1687881345_n