» » » Ályktun frá samninganefnd Drífanda stéttarfélags

Ályktun frá samninganefnd Drífanda stéttarfélags

Ályktun frá samninganefnd Drífanda stéttarfélags

Samninganefnd Drífanda stéttarfélags lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun samningaviðræðna milli atvinnurekenda og launafólks undanfarna daga. Enn eina ferðina á að skammta almennu verkafólki skammarlegar upphæðir meðan hálaunafólk fær hundruð þúsunda í mánaðarhækkanir á sín laun.
Það alvarlega í málinu er að hugmyndir um þessar nánasarlegu hækkanir koma einar og óstuddar innan úr herbúðum verkalýðshreyfingarinnar og eru þar með að grafa undan lífsafkomu fólks. En það furðulega er að þessar tillögur innan úr verkalýðshreyfingunni tryggja forystumönnum hennar tugum og hundruðum prósenta meiri launahækkanir en ætlað er að almennir félagsmenn hennar fái.
Sannarlega er misjafnt hve mikið atvinnugreinar þola að taka á sig launahækkanir. En algjörlega er ljóst að útflutningsatvinnugreinar myndu þola tugprósenta launahækkun í ljósi tugmilljarða afkomu þeirra undanfarin ár og í ljósi afsláttar er mörg þeirra hafa fengið á auðlindagjaldi.
Það sætir því furðu að í uppsiglingu sé framhald á einni stærstu gjöf Íslandssögunnar fyrr og síðar til fiskvinnslunnar í landinu í boði verkalýðshreyfingarinnar, í formi launaafsláttar.
Þeir sem þurfa að bera þessa gjöf til atvinnurekenda í launaumslögum sínum, er fólk á töxtum sem eru undir og rétt við lögbundin lágmarkslaun í landinu. Sama fólk og mun verða skilið eftir hvort sem skattlækkunartillögur ríkisstjórnarinnar eða ASÍ verða að veruleika.
Samninganefnd Drífanda skorar á samninganefndir SGS og ASÍ að hysja upp um sig buxurnar, koma sér út úr þægindahringnum, og sækja launin sem sannarlega er innistæða fyrir til fyrirtækjanna.

F.h. samninganefndar Drífanda
Arnar G. Hjaltalín
Formaður Drífanda stéttarfélags