» » » Ályktun um atvinnumál

Ályktun um atvinnumál

Ályktun um atvinnumál
4. þing Starfsgreinasambands Íslands, haldið í Hofi á Akureyri dagana 16.-18. október 2013, minnir á þau grundvallarmannréttindi að hafa aðgang að vinnu. Þó vissulega hafi náðst ákveðinn árangur í baráttunni við atvinnuleysið þá eigum við enn langt í land að ná viðunandi stöðu í atvinnumálum. Atvinnuleysi er mikið og vinna verður af hörku gegn því. Hafa verður í huga að bak við opinberar atvinnuleysistölur er falið atvinnuleysi. Launafólk hefur sótt vinnu erlendis, fallið út af vinnumarkaði, tæmt bótarétt sinn, sótt nám og tekið þátt í vinnumarkaðsaðgerðum. Það er sameiginlegt verkefni að vinna gegn atvinnuleysi með fjölbreyttum vinnumarkaðsúrræðum og fjölgun starfa.
Þing Starfsgreinasambandsins leggur jafnframt áherslu á að ný fyrirtæki, hvort sem þau eru smá eða stór, byggi upp sína atvinnustarfsemi í góðri sátt við stéttarfélög launafólks og innan þeirra reglna sem vinnumarkaðurinn hefur sett sér. Það er með öllu óþolandi að í ákveðnum atvinnugreinum þrífist svört atvinnustarfsemi og gerviverktaka í stórum stíl. Slíkt er ólíðandi og á ábyrgð okkar allra að vinna gegn. Það er vaxandi áhyggjuefni að hér á landi fjölgi þeim sem vinna svart. Þetta fólk er algjörlega réttindalaust sem er óásættanlegt. Nauðsynlegt er að halda áfram og efla samstarf verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisskattstjóra. Þing SGS leggur áherslu á að yfirvöld fái auknar heimildir til að beita hörðum viðurlögum gegn svartri atvinnustarfsemi.