» » » Berjumst fyrir réttlæti

Berjumst fyrir réttlæti

Grindavík 23 mars 2015.

Ég hef verið spurður  undanfarna daga hvers vegna ég sé að draga fólk út í verkfall á þessari stundu. Í mínum huga er ekki vafi á að samþykkt verði að fara í verkfall og tel ég það algjörlega nauðsynlegt. Hugsið ykkur hvernig farið er með fólk þegar  venjulegur verkamaður á taxtalaunum ætlar að geta framfleytt sér og sínum þá verður hann að vinna 10 til 16 tíma á dag á meðan  stjórnandinn Vinnur ca. Átta tíma á dag og fyrir það hefur hann milljónir á mánuði og kvartar yfir því hversu erfitt lífið sé og að ekki sé nú talað um álagið. Til að halda geðheilsu  fer toppurinn í nokkura vikna vetrarfrí og svo álíka langt sumarfrí með fjölskylduna og svo eitt og eitt frí bara með  maka sínum. Nú árið 2015 er staðan sú að bilið á milli lágmarkslauna og launa stjórnenda hefur  aukist verulega í krónum talið.

Nú er í gangi kosning þar sem 16 aðildarfélög Starfsgreinasambandsins eru að biðja um verkfallsheimild til að herja á Samtök Atvinnulífsins um kjarabætur til að komast nær því að fólk sem vinnur eftir töxtum geti framfleytt sér. Það er ekki eins og farið sé fram með ósanngjarnar kröfur þetta er einfaldlega sanngirnis sjónarmið um að fólk komist nær því að lifa á dagvinnulaunum. Mörg fyrirtæki eru að greiða eigendum sínum milljarða í arðgreiðslur á ári og margir stjónarmenn í stærri fyrirtækjum eru með hærri laun en þið fyrir að sitja ca einn fund á mánuði sem stendur að jafnaði einn til þrjá tíma en almennt verkafólk  vinnur 173.3 tíma. Til eru dæmi um að menn hafi 350.000kr fyrir það eitt að vera í varastjórn. Stoppum þetta misrétti og kjósum JÁ við verkfalli. Þeir sem búa til verðmætin verða að geta lifað á launum sínum ekki bara gert eigendum vinnustaða sinna lífið léttara.

Nokkrir stjórnendur hafa haft samband við mig og sagt mér að þeir borgi sínu fólki yfir 300.000kr. á mánuði.  Ég hef skoðað þetta og það er rétt að þeirra fólk sé að fá yfir 300.000kr. á mánuði, en það hefst með því að vinna vel yfir 200 tíma á mánuði og það með bónusum og yfirvinnu eða vaktarálagi. Ég sá líka launaseðil með 196 dagvinnutímum og það eitt og sér er ólöglegt.  Sem betur fer eru líka nokkrir að borga góð laun og  þeir eiga það sameiginlegt að starfsfólk stoppar lengur  hjá sínum atvinnurekendum.  En því miður er líka til dæmi um að fólk og þá sérstaklega konur, sem hafa unnið fyrir sama fyrirtækið í áratugi en eru ennþá á lágmarkslaunum þrátt fyrir langa starfsreynslu.

 

 

 

Það verður að segjast eins og er að Samninganefnd samtaka atvinnulífsins hefur ekki komið með neitt til að leysa deiluna en þau segja aftur á móti að okkar kröfur séu ósanngjarnar. Spáið í það hverskonar framkoma þetta er hjá þeim. Þau eru í raun að treysta á  að þið séuð svo illa stödd fjárhagslega  að þið getið ekki  farið í verkfall til að krefjast hærri launa. Hjá mörgum er þetta orðið eins og á tímum þrælahalds.

Kæru félagar og vinir!.  Veitum sterkt verkfalls umboð svo hægt verði að breyta þessu óréttlæti.

Segjum JÁ við verkfalli.

Baráttukveðjur,

Magnús Már Jakobsson

Formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur943431_10151371171721205_1687881345_n

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *