» » » Gleðilegan baráttudag

Gleðilegan baráttudag

Sæl og blessuð og gleðilegan baráttudag verkalýðsins.

Síðustu dagar hafa verið hreint frábærir fyrir okkur Grindvíkinga. Meistaraflokkur karla og 11. flokkur karla urðu Íslandsmeistarar sl sunnudag. Ég hef ekki upplifað mikið meiri gleði í bæjarfélaginu okkar en þennan dag. Við óskum þessum glæsilegu fulltrúum okkar innilega til hamingju með titlana sem og öllum sem koma að körfuboltanum í Grindavík. Þetta fólk á bak við tjöldin hefur unnið mikið og gott starf sem við eigum þakka fyrir.  Á sunnudagsmorgun vöknuðum við upp við það að eiga þrjá væntanlega þingmenn. Við óskum þeim velfarnaðar í þessu nýja starfi.

Á dögum eins og 1. maí megum við ekki gleyma því mikla starfi sem forverar okkar í verkalýðshreyfingunni hafa unnið.  Það hafa orðið miklar framfarir í verkalýðsmálum í gegnum tíðina.  Menn og konur hafa barist fyrir bættum hag verkafólks.  Fólk eins og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Gvendur jaki og margir fleiri koma upp í hugann þegar hugsað er til baka.  Í dag er staðan þannig að við verðum að fá meiri kaupmátt fyrir okkur öll og það gerist ekki að sjálfu sér. Mín skoðun er sú að verðtryggingin sé okkar helsti óvinur þessa dagana. Aðrir segja að hún sé ekki vandamálið heldur sé það verðbólgan en á meðan auðvaldið græðir á verðbólgunni í gegnum verðtrygginguna þá taka þeir ekki á henni. Þessi eignaupptaka sem fólk út um allt land er að verða fyrir verður að stoppa og það strax. Nú eru ný afstaðnar kosningar og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á framtíðina og að samningarnir í haust verði okkur öllum til framdráttar og allt fari að snúast okkur í hag sem þjóð, bæði lauþegum og atvinnurekendum því við þurfum á því að halda.

Baráttukveðjur,

Magnús Már Jakobsson