Kröfugerð SGS
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði
sem renna út 31. desember 2018
Forsendur þess að undirritaðir verði kjarasamningar er að launafólk geti framfleytt sér á
dagvinnulaunum og þau mæti opinberum framfærsluviðmiðum. Hækkanir lægstu launa skulu vera í
forgangi. Nýr kjarasamningur skal gilda frá því síðasti samningur rann út, eða frá 1. janúar 2019 og skal
vera afturvirkur dragist að ná samningum. Stefnt skal að því að semja til þriggja ára en þó með skýrum
og mælanlegum forsenduákvæðum, meðal annars jöfnunarstuðli þannig að þær launahækkanir sem
samið er um fyrir lág- og millitekjuhópa umbreytist ekki sjálfkrafa í ofurlaunahækkanir til þeirra hæst
launuðu. Samið skal um krónutöluhækkanir sem almennar hækkanir. Tekjutrygging skal afnumin og
lægstu taxtar skulu vera lægstu grunnlaun.
Starfsgreinasamband Íslands áskilur sér rétt til að kynna frekari kröfur í einstaka starfsgreinum.
Sérákvæði hvers aðildarfélags verði framlengd.
Launabreytingar
Lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra
skattkerfisbreytinga, þannig að sköttum verði létt af lægstu launum og lægri millilaunum.
Launataflan verði endurskoðuð og einfölduð verulega og skilgreint sé hundraðshlutfall á milli flokka og
þrepa. Fjöldi þrepa verði aukinn þannig að starfsaldursþrep miðist við eins árs, 3ja ára, 7 ára og 10 ára
þrep.
Ungmennalaun yfir 18 ára aldri verði afnumin en þess í stað miðist grunnlaun við 18 ára aldur.
Ábyrgð og álag verði metið til launa með skilgreindu hundraðshlutaálagi. M
2
Húsnæðismál
Sett skulu inn ákvæði sem takmarka heimildir atvinnurekanda til að gera húsaleigu hluta af
ráðningarkjörum. Heimilað skal eftirlit með slíkum ráðningarkjörum. Húsaleiga skal ekki nema meira
en tilteknu hlutfalli af heildarlaunum á mánaðargrundvelli. Gerð verði krafa um að húsaleiga sé ekki
rukkuð nema samkvæmt þinglýstum húsaleigusamingi, sé í samræmi við eðlilegt leiguverð og að
umsamin upphæð húsaleigu sé þá hluti af ráðningarsamningi sem stéttarfélagi sé heimilt að skoða. Sé
húsnæði á vegum atvinnurekanda skal það lúta reglugerð um starfsmannabústaði og skal
stéttarfélögum heimilt, með samþykki starfsmanns eftir atvikum, að kanna ástand slíks húsnæðis í
eftirliti.
Staða lífeyrirssjóðakerfisins verði rædd og sérstaklega hvernig nýta megi fjárfestingagetu þess til
uppbyggingar á húsnæðismarkaði sem nýtist lág- og miðtekjuhópum. Farið er fram á rýmkaðar
heimildir launafólks til að nýta séreignarsparnað til fyrstu útborgunar húsnæðiskaupa eða til
niðurgreiðslu á húsnæðislánum.
Fyrir lýðræði gegn mismunun
Vinnustaðalýðræði verði innleitt þannig að starfsfólk sé kallað til og haft með í ráðum þegar teknar eru
ákvarðanir sem varða framtíð vinnustaða, lokanir starfsstöðva eða aðrar þær ákvarðanir sem hafa
afdrifaríkar afleiðingar fyrir starfsfólk.
Trúnaðarmenn njóti aukins svigrúms til að sinna sínu félagslega starfi á fullum launum á vinnutíma og
heimildir stéttarfélags til að eiga í samskiptum við starfsfólk á vinnutíma sé óvéfengt. Sérstaklega skal
tryggja stuðning og svigrúm fyrir trúnaðarmenn á smærri vinnustöðum og vinnustöðum með fjölda
starfsstöðva. Heimild verði að kjósa fleiri trúnaðarmenn en lög um stéttarfélög og vinnudeilur gera ráð
fyrir og að þeir deili með sér félagslegum skyldum og njóti uppsagnarverndar. Uppsagnarvernd
trúnaðarmanna skal líka ná til þeirra sem gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög eins og að
sitja í stjórnum, faghópum eða samninganefndum. Heimildir trúnaðarmanna og stéttarfélags til að
boða til vinnustaðafunda á vinnutíma verði rýmkaðar.
Innleitt skal í kjarasamning að atvinnurekandi útvegi túlkaþjónustu þegar við á og að starfsmenn skuli
að jafnaði ekki látnir túlka sín á milli þegar um mikilvæga upplýsingagjöf er að ræða. Stéttarfélög hafi
rétt til samráðs við atvinnurekendur um að meta nauðsyn og gæði túlkaþjónustu og útfærslu hennar.
Tekið skal á mismunun vegna kyns, aldurs og uppruna. Óheimilt skal að gera kröfu um kynbundinn
vinnufatnað. Óheimilt skal að mismuna starfsmönnum vegna tungumálakunnáttu. Túlkaþjónusta eða
þýðingar skulu veittar þegar við á.
Aðbúnaður og heilsa
Heilsuvernd skal efld með því að atvinnurekendur greiði styrki til heilsueflingar og gefi starfsfólki færi
á árlegri læknisskoðun á næstu heilsugæslustöð á vinnutíma án launaskerðingar. Atvinnusjúkdómar
skulu viðurkenndir með skýrari hætti en nú er.
Veittur verði fullur nauðsynlegur búnaður, t.d. skór, mannbroddar, fatnaður og annað sem þarf til að
starfsmaður geti sinnt vinnu sinni.
Bæta við skýringakassa um vinnu í köldu rými skv. reglugerð nr. 384/2005
3
Réttindi styrkt
Öll áunnin persónubundin réttindi miðuð við starfsaldur haldi sér án skerðinga milli atvinnurekenda.
Veikindarétti verði breytt þannig að eftir ár í starfi verði starfsmanni heimilt að nýta allt að 12 daga af
áunnum veikindarétti vegna veikinda maka, barna og foreldra á hverju 12 mánaða tímabili. Allur
veikindaréttur verði greiddur með staðgengilslaunum og skýra þarf ákvæði um að hver dagur í
veikindum sé talinn sem dagur sama hvort um tímkakaup eða vaktavinnu er að ræða og hve langur
vinnudagurinn telst. Ef starfsmaður er kallaður úr vinnu vegna veikinda barns eftir hálfan dag skal
veikindadagurinn teljast hálfur. Sama á við ef starfsmaður er frá vinnu hluta úr degi vegna veikinda.
Orlofsréttur verði aukinn þannig að lágmarkssumarfrí verði 25 dagar en auk þess verði veitt tveggja
daga vetrarorlof á launum.
Endurskoða uppsagnarfrest þannig að eftir tvö ár í starfi verði tveggja mánaða uppsagnarfrestur.
Menntun og fræðsla
Raunfærnimat verði eflt í öllum starfsgreinum og tryggt að starfsfólk af erlendum uppruna geti sótt
íslenskunámskeið á vinnutíma án launaskerðingar. Hugað verði sérstaklega að viðurkenningu
menntunar og hæfni erlends starfsfólks. Atvinnurekendur skulu auðvelda aðgang að námskeiðum og
þjálfun fyrir starfsmenn 40 ára og eldri til að þeir viðhaldi stöðu sinni á vinnumarkaði.
Atvinnurekendur greiði laun atvinnubílstjóra á meðan á endurmenntunarnámskeiði stendur, óháð því
hvort það eru skipulagt á dagvinnutíma eða ekki.
Vinnutími
Við útfærslur á styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar verði tekið tillit til þeirrar vinnu sem
almennt verkafólk stundar og þar sem mælanleg afkastaaukning er erfið í framkvæmd, svo sem störf í
þjónustu, umönnun, á færiböndum o.s.frv. Vinnuvikan verði skilgreind frá mánudegi til föstudags og
markvisst sé stefnt að 32 stunda vinnuviku á samningstímanum.
Vinnuskylda í vaktavinnu verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks og fyrir það verði greidd full laun og
hlutfallslega miðað við starfshlutfall.
Ef lok vinnudags eru á annari starfsstöð en upphaf vinnudags fari flutningur starfsmanns aftur á
upphafsstarfsstöð fram á vinnutíma. Atvinnurekandi sjái fyrir flutningi.
Starfsmenn hafi greiðan aðgang að inn- og útstimplun óháð fyrirkomulagi tímaskráninga á
vinnustaðnum og óheftan aðgang að tímaskýrslum. Merkja þarf sérstaklega á tímaskýrslum ef tímum
er breytt. Geymsla tímaskýrslna miðist við fyrningarfrest launakrafna.
Aðrar kröfur
Bætt skal við sektarákvæði vegna brota á ákvæðum kjarasamnings. Sektarákvæði verði skilgreind
krónutala miðað við kjarasamningsbrot og rennur í vinnudeilusjóð viðkomandi stéttarfélags. Til
viðbótar skulu atvinnurekendur bera eðlilegan og fullan kostnað við gerð launakrafna sem stéttarfélag
reisir fyrir félagsmenn sína vegna vangoldinna launa. Stéttarfélag innheimtir þann kostnað beint af
viðkomandi atvinnurekanda sem hluta af launakröfu.
Endurgera stórframkvæmdasamninginn þannig að hann nái yfir minni framkvæmdir en nú eru
skilgreindar í samningnum. Ítrekaðar eru kröfur Starfsgreinasambandsins um endurgerð samningsins.
4
Ákvæðum í 5. kafla aðalkjarasamnings skal breytt þannig að réttur stéttarfélaga til aðkomu að
vinnustaðasamningum verði styrktur, til að vernda betur hagsmuni starfsmanna á viðkomandi
vinnustöðum.
Taka skal sérstaklega fyrir ákvæði um ferðir til og frá vinnu og ábyrgð atvinnurekenda á ferðum á milli
vinnustaða og til og frá vinnu þegar almenningssamgöngur eru ekki til staðar.
Samþykkt á fundi samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands 10. október 2018